Upprisa

Upprisa

Einn spörfugl sem fraus
í frosti liðins vetrar
féll í fagra hendi Guðs
sem glæddi hann fjöri,
sleppti litlum fugli
á iðjagræna Jörð.

Því hvert laufblað
sem deyr Drottni sínum,
fölnar og visnar,
vaknar til lífs á himnum.

Öllu sem tortímist á Jörðu,
bjargar Guð.

Allt sem englarnir grípa
fallið í blóðugum stríðum,
á leikvöllum lífsins,
endar í faðmi hans
sem allt upp vekur…
…í fyrirgefningu,
…í kærleika.

Þannig rís úr sortanum
iðjagræn Jörð,
upprisin Jörð.
Jörð friðarins.

Fjölskrúðugir regnskógar
skarta piparfuglum,
páfagaukum,
trjáfroskum,
fjölbreytileika eilífðarinnar.

Einn spörfugl sem fraus
í frosti liðins vetrar,
nýtur eilífs sumars,
náðar og kærleika.

Flögrar hamingjusamur
milli birkigreina í blágresi himnanna…

…syngur föður lífsins eilífa dýrð.

IEB (2016)

Vinur minn Mikjáll – smásaga

Ég er bæklaður, sjúkur, grettinn og grár. En mér er alveg sama. Besti vinur minn heitir Mikjáll. Hann er erkiengill. Hann fylgir mér hvert sem ég fer enda geta englar verið á mörgum stöðum í einu. Læknarnir fóru fyrst að hafa verulegar áhyggjur af mér þegar þeir áttuðu sig á þessu með Mikjál. Fyrst heyrði ég aðeins raddir. Raddir sem reyndu að brjóta mig niður en svo kom Mikjáll. Hann birtist eina nóttina, stóð við rúmstokkinn og rak allar raddirnar burt. Síðan höfum við Mikjáll verið bestu vinir. Læknarnir hafa reyndar alltaf reynt að dæla í mig lyfjum en lyfin virka ekki í tuttugu prósent tilfella og lyfin virka svo sannarlega ekki á mig. Þess vegna er það sem Mikjáll fylgir mér. Alltaf. Stundum nenni ég ekki að eiga samskipti við hann. Þá hunsa ég hann. En hann er þarna. Alltaf.

Það eru ekki lengur til nein almennileg geðsjúkrahús. Ekki lengur neinir staðir með grænum grundum, trjám og görðum til að geyma vitleysinga eins og mig. Það eru bara göngudeildir og læknateymi. Á tímabili var ég eins og jó jó. Ég hoppaði inn og út af göngudeildum. Það var á meðan læknarnir héldu að þeir gætu læknað mig. En núna er kerfið búið að gefast endanlega upp á mér. Kennitalan mín er skráð í kerfið og lögheimili mitt er eins og alltaf: Óstaðsettur í hús. Núna taka geðdeildirnar ekki lengur við mér nema ég missi mig á almannafæri. Ég er algjörlega vonlaust tilfelli.

Ég gekk eftir Rauðarárstígnum og Mikjáll sveif í humátt á eftir mér. Það góða við Mikjál er að hann er góður erkiengill. Þess vegna er hann ekkert að segja mér að drepa fólk. Stundum langar mig samt sjálfan til að deyja. Ég verð bara stundum svo þreyttur á þessu öllu saman. Það er svo erfitt að vera alltaf með sterkasta engil heims í eftirdragi. Það er frekar að Mikjáll segi mér að gera góðverk. Hann segir mér til dæmis að gefa fuglunum af brauðinu mínu jafnvel þótt ég eigi bara eitt franskbrauð eftir og sitji á bekk við Hlemm og vonist eftir því að hitta einhvern kunningja sem kannski hefur unnið smá pening í spilakassa og væri til í að splæsa á mig svo sem einni Sómasamloku. Örorkubæturnar duga aldrei nema í þrjár vikur. Ég man aldrei eftir á hvernig ég fer að því að lifa síðustu viku mánaðarins. Hungurtilfinningin í maganum er orðin þrálát og langvarandi. Núna bý ég í tjaldi uppi í Heiðmörk. Tjaldið er lítið þriggja manna tjald úr Rúmfó og það er grænt af því að enginn má vita að ég bý í tjaldi uppi í Heiðmörk. Ég tek strætó upp í Norðlingaholt og síðan labba ég að felustaðnum mínum, greninu mínu sem er á bakvið þyrpingu af þéttum grenitrjám. Ég reyni að vera á ferðinni yfir daginn og fer ekki í náttstað fyrr en eftir miðnætti til að vekja sem minnsta athygli. Ég er í þrennum gallabuxum í einu. Af því að það er svo blautt og kalt. Ég er ennþá í lopapeysunni sem Bíbí frænka prjónaði á mig fyrir fimm árum. Þessi peysa hefur þolað ýmislegt, bæði flær og lýs af hundum og köttum. En hún er ég. Ég er peysan. Við erum næstum samgróin. Ég nenni ekki að fara í sund. Vil ekki að neinn sjái óhreinu, götóttu nærbuxurnar mínar, vil ekki að neinn sjái tærnar sem þyrftu fótsnyrtingu. Ég vil ekki að neinn sjái mig nema í þrennum gallabuxum og lopapeysu og gamalli Gefjunarúlpu frá 1974. Ég set hettuna yfir höfuðið til að fela óklipptan, úfinn hárlubbann.

Tryggingalæknirinn spurði mig síðast hvort ég gæti hugsað mér að fara inn á vinnumarkaðinn. Ég sagðist vera reiðubúinn ef Mikjáll fengi vinnu líka. Læknirinn spurði hver Mikjáll væri. „Mikjáll er foringi erkienglanna og besti vinur minn“, sagði ég. „Hann fylgir mér alla daga.“ Læknirinn varð dálítið furðulegur á svipinn. „Getur þú rétt hendurnar upp yfir haus?“ spurði hann síðan tortrygginn. „Ekki málið“, sagði ég og brosti. „Við Mikjáll getum allt ef við gerum hlutina saman. Þú veist að Mikjáll erkiengill sigraði drekann!“ Það gerist reyndar oft að þegar ég fer að tala um drekann, erkióvin okkar Mikjáls, andvarpa læknarnir og þessi tryggingalæknir var engin undantekning. Hann sagðist ekki þurfa að ræða meira við mig og skrifaði eitthvað hratt í skýrsluna sína í tölvunni. Ég skil ekki af hverju ég má ekki tala um drekann. Ég fæ stundum martraðir þar sem drekinn kemur og þá þarf ég að kalla á Mikjál. Sjálfið mitt verður ósköp lítið þegar það mætir drekanum og það eins og kvarnast úr meðvitund minni eins og hún sé klettur á brimóttri strönd.

En núna sit ég sem sagt hérna við Hlemm. Nýlega búin að fá örorkumat samþykkt í fimm ár í viðbót. Alltaf eru allir að vonast til að Mikjáll og drekinn yfirgefi mig. En Mikjáll hefur sagt mér að hann ætli aldrei að yfirgefa mig.

Stundum ef ég öskra á almannafæri, til dæmis þegar drekinn kemur og ætlar að grilla mig með logandi eldi, kemur löggan og hirðir mig upp í bíl. Þá fæ ég yfirleitt að gista eina nótt á Lansanum. En daginn eftir eru alltaf öll pláss full, ég orðinn rólegur og mér hent út aftur. Það eina góða við þetta er að þau leyfa mér yfirleitt að borða hádegismat á spítalanum áður en ég er útskrifaður. Það er mikill lúxus í mínu tilfelli.

Og núna sit ég á þessum æðislega bekk við Hlemm og velti því fyrir mér hvað ég eigi að gera næst. Ég reyndi einu sinni að farga mér með því að henda sjálfum mér í Tjörnina í Reykjavík. En sá fúli pyttur er svo grunnur að það eina sem ég hafði upp úr því var ógeðslegt bragð í munninum og fýla af fötunum mínum sem hélst í nokkrar vikur. Ég er hættur að reyna sjálfsmorð. Bæði er öllum sama nema mér sjálfum og svo langar mig í raun og veru ekki til að deyja. Ef maður er dáinn getur maður ekki hreyft litlafingur lengur. Maður getur ekki verið viss um framhaldslíf og þar af leiðandi getur maður ekki verið viss um að geta velt dauða sínum fyrir sér eftir á. Ég veit reyndar að Mikjáll er eilífur og hann segir mér að ég muni lifa í eilífðinni. Ég hef bara svo slæma reynslu af bókstafstrúarmönnum. Þeir reyna að hjálpa mönnum eins og mér en svo vilja þeir fá að frelsa mig í staðinn með endalausum fyrirlestrum og samkomum. Og svo halda þeir alltaf að ég sé andsetinn. En ég er aðeins með Mikjál. Við Mikjáll erum bestu vinir og þannig verður það áfram. Þeir bókstafstrúuðu eiga dálítið erfitt með að skilja það.

Tjaldið í Heiðmörkinni er þriggja manna tjald því þar verður líka að vera pláss fyrir Mikjál. Vængirnir hans eru afar fyrirferðarmiklir. Núna ligg ég í tjaldinu og horfi upp í tjaldhimininn. Við getum spjallað klukkutímum saman. Mikjáll þekkir náttúrulega erkiengilinn Raziel sem veit allt. Ég hitti Raziel bara stundum. Mikjáll á náttúrulega sína vini og stundum útskýrir hann fyrir mér að hann þurfi að sinna öðrum en mér. Hann fer samt aldrei alveg burt. Ég sé fjólublátt ljósið í kringum hann. Það er ægifagurt. Sverðið hans er úr silfri og gulli og glitrar þegar sólin hnígur til viðar. Vængirnir eru gráhvítir með blárri slikju. „Vængirnir eru ekki flugtæki“, útskýrir Mikjáll fyrir mér. „Nei, þeir eru til þess að ég geti verið á mörgum stöðum samtímis“, segir hann og hlær.

Mikjáll er svo fallegur að það er hægt að horfa á hann næstum endalaust. Litbrigði hans frá ljósbláu og gylltu yfir í fagurfjólublátt umbreytast í sífellu. Hann minnir á regnbogann nema Mikjáll er enn fegurri. Ég get stundum gleymt mér algjörlega, horfið algjörlega burt úr þessum heimi og verið með Mikjáli einum. Þá segja læknarnir að ég sé í geðrofi. Geðrof á að ganga yfir á 40 dögum og 40 nóttum. Þessvegna var það sem Kristur var í eyðimörkinni í 40 daga og 40 nætur. Hann var í geðrofi eins og ég. Ég hef aldrei séð Krist en hann er vinur Mikjáls.

Oft fer ég í strætó og ek sömu leiðina hring eftir hring eftir hring. Ég borga alltaf fyrir tvo og tek tvö sæti, fyrir mig og Mikjál. Bílstjórarnir þekkja mig og ég segi þeim að ég sé að kaupa miða fyrir Mikjál. Einu sinni lenti ég í því að vagninn fylltist á föstudagseftirmiðdegi og það var ungur stúdent með ipad sem endilega vildi setjast við hliðina á mér. Ég varð alveg brjálaður af því að hann var að setjast ofan á Mikjál. Það endaði með því að löggan kom og ég þurfti að gista fangaklefa. Það var hræðilegt. Hugsið ykkur að loka Mikjál erkiengil inni í þröngum fangaklefa. Með þessa líka vængi. Okkur Mikjáli leið ekki vel þá. Enda kom drekinn um nóttina, stóð fyrir utan gluggann og gerði gys að okkur. Honum fannst æðislega gaman að sjá okkur í steininum. Daginn eftir fékk ég fyrirlestur frá löggunni um að ég mætti ekki abbast upp á fólk í strætisvögnum. Ég reyndi að útskýra fyrir þeim að Mikjáll þyrfti pláss en þeir hlustuðu ekki á mig. Á endanum var mér hent aftur út á götu og ég fékk ekki einu sinni kaffi.

Stundum þegar ég á peninga fer ég í Húsdýragarðinn. Okkur Mikjáli þykir nefnilega vænt um dýr. Öll dýr hænast að Mikjáli. Selirnir elta hann, fuglar setjast nálægt honum. Meira að segja krummi eltir okkur þannig að mér líður eins og ég sé sjálfur Óðinn. En svo eru peningarnir búnir og hungurverkirnir í maganum segja mér enn einu sinni að ég sé enginn Guð, heldur mannleg vera. Svo koma dagar, dagar þegar kalt er, snjór, frost og rigning. Dagar með vetrarstormum. Þá dugar ekkert tjald í Heiðmörk.

Það er undirgangur í Breiðholtinu, steypt göng sem tengja Mjóddina við elliblokkirnar tvær handan Breiðholtsbrautarinnar. Þar kem ég mér oft fyrir á veturna. Ligg þar í svefnpoka með aleigu mína í nokkrum plastpokum. Ég er þakklátur borgarverkfræðingi fyrir að hafa spanderað í þessi undirgöng. Þakklátur fyrir skjólið. Svo hef ég stundum gert það að missa mig fyrir framan Nettó í Mjóddinni, öskra og æpa þangað til löggan kemur. Þá fæ ég yfirleitt að gista eina nótt í öruggu skjóli.

Stundum skil ég líkamann eftir og fer í sálnaflakk með Mikjáli. Þá förum við langt út í geim og Mikjáll segir mér ýmsa leyndardóma. Einstaka sinnum þegar mér er kalt á veturna reynir Mikjáll að skýla mér með vængjunum sínum. Samt verður mér kalt. Það er eins gott að vera í þrennum gallabuxum í einu og með grifflur og húfu.

Eina nóttina var mér alveg sérstaklega kalt. Það var napur vetrarstormur í febrúar og við Mikjáll vorum alveg hélaðir af kulda þar sem við lágum báðir í undirgöngunum við Mjódd. Þá spurði Mikjáll mig einfaldlega hvort ég vildi ekki koma með sér til fagra landsins þar sem englarnir búa. Ég bað hann um að faðma mig, ég sofnaði og síðan man ég ekki meir.

Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, M.A.

Að koma fólki á rétta hillu

Vinnumarkaðir eru hræðilegt fyrirbæri fyrir einhverft fólk. Vinnustaðir eru fullir af hópum, grúppum, teymum og við sem erum einhverf skiljum hvorki upp né niður í því sem er að gerast á vinnustaðnum. Hver einasta atvinnuauglýsing gerir kröfu um góða færni í mannlegum samskiptum.

Fyrir einhverfa er þetta eins og útilokun. Það er semsagt partý í gangi og okkur er ekki boðið og það er því miður ekki í fyrsta skipti. Ég sé fyrir mér í anda hvernig væri ef atvinnuauglýsingar tækju það fram að fólk yrði að vera ljóshært, kvenkyns eða með ákveðna kynhneigð.

Þannig líður okkur einhverfum þegar sagt er: Verður að vera góður í mannlegum samskiptum!

Myndin hér að ofan er af Alan Turing. Turing var mjög líklega einhverfur. Hann var náttúrulega lagður í svolítið einelti sem krakki af því að hann var svo öðruvísi. Hann var mjög góður í rökhyggju og stærðfræði. Þannig að hann fékk vinnu hjá hernum við að leysa og greina dulmál Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni og það tókst. Turing hefði aldrei fengið vinnu neinsstaðar ef krafist hefði verið færni í mannlegum samskiptum.

Turing bjó til fyrstu mekanísku tölvuna og notaði hana til að reikna út dulmál Þjóðverja. Það hefði aldrei tekist með mannsheilanum einum saman. Temple Grandin hefur sagt að án einhverfu hefði Tómas Edison sennilega aldrei gert uppgötvanir sínar á sviði rafeðlisfræði.

Á móti kemur að ekki allir einhverfir eru snillingar. Flestir einhverfir vilja bara fá að vera venjulegir og innan um venjulegt fólk. Snillingastimpillinn getur jafnvel verið hálf bagalegur þar sem hann gerir gríðarlegar kröfur til einhverfra. Það er líka í lagi að vera bara maður sjálfur, jafnvel þótt maður sé enginn snillingur.

Ég á góðan vin sem er einhverfur. Hann er frábær forritari og bjó til sitt eigið stafróf sem er lesið á hlið. Hverjum nema einhverfum gæti dottið í hug að búa til sitt eigið stafróf. Stafrófið hans má sjá á síðunni http://www.dcode.fr . Einhverfir taka eftir hlutum sem aðrir sjá ekki. Þeir sjá ljósið brotna í glerinu og geta horft á glerið endalaust, starað á fegurð þess meðan venjuleg manneskja segir bara: Og hvað svo?

Til hvers ertu að stara í ljósið?

Ég veit ekki hvort Stephen Hawking var einhverfur, en hann var að stara í eldinn þegar hann uppgötvaði sannleikann um svarthol alheimsins. Það er nefnilega stundum gott að taka eftir smáatriðunum. Getur verið pirrandi fyrir aðra. Vissulega. En samt!

Ferðalag mitt um heim Einhverfunnar hefur verið samfellt ævintýri síðan ég uppgötvaði að ég er sjálf einhverf. Ég vil læra allt um einhverfurófið. Ég les Grandin, Attwood og Baron-Cohen. Það er erfitt að lesa sumt. Um takmarkanir, skerðingar, málstol og fleira. En yndislegt líka að lesa um sigra mannsandans og hið einhverfa systra- og bræðralag allra einhverfra.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir B.A. B.Sc. M.Sc. M.A.

Skynjun einhverfra

Einhverfir skynja heiminn öðruvísi en svokallað taugaeðlilegt fólk (NT). Einn einhverfur vinur minn lýsir því þannig að hann segist vera með magnara í eyrunum, þannig að það má ekkert vera hátt stillt í kringum hann. Ég sjálf er mjög viðkvæm fyrir því sem ég kalla hávaða. Þoli ekki útvarp eða sjónvarp og væri búin að henda hvoru tveggja ef ég þyrfti ekki að taka tillit til eiginmannsins sem elskar handbolta og fótbolta í sjónvarpinu.

Sumir einhverfir eru viðkvæmir fyrir ljósi og þola sérstaklega illa allskyns flúorljós. Aðrir vilja bara borða mat með ákveðinni áferð og það má alls ekki blanda matartegundum saman á diskinum. Allt verður að vera sér.

Ég skynja þrívítt rými öðruvísi en taugaeðlilegt fólk og hreyfi mig af meira óöryggi gegnum hið þrívíða rými heldur en flestir. Ég er þessvegna alveg vonlaus þátttakandi í öllum þrívíddaríþróttum eins og tennis eða handbolta.

Ég heyri hins vegar með næstum fullkominni tónheyrn alla tóna og læri framburð tungumála með eyranu. Ég hef sérgáfu á sviði tungumála og tölvutækni. Þannig tala ég og held uppi samræðum á rússnesku þótt ég hafi einungis dvalið 2 vikur í Moskvu sem ferðamaður.

Ég á erfitt með að fara í sund og sturtu. Allir búningsklefar eru erfiðir.

Að vera einhverf

Að vera einhverf er eins og að vera alltaf stillt á vitlausa bylgjulengd í heimi sem skilur mann ekki og sem vill stilla mann. Fólki finnst vanta svo sárgrætilega lítið upp á að maður sé í lagi, þannig að það er alltaf að leita að takkanum til að geta stillt mann rétt. En sá takki er einfaldlega ekki til. Því finnst fólki maður því vera eins og trufluð útvarpsstöð. Það snarkar í útsendingunni og eru eilífar truflanir. Þetta fer oft talsvert í taugarnar á venjulegu fólki. Af hverju er ekki hægt að stilla hana Ingibjörgu Elsu á rétta bylgjulengd?

Samband móður og dóttur er oft erfitt hjá einhverfum dætrum. Móðirin sem er ekki einhverf skilur ekki af hverju dóttirin klæðir sig undarlega, hefur ekki áhuga á sminki og farða, vill ekki ganga á háum hælum og neitar almennt að falla inn í hina dýrðlegu kvenímynd hins vestræna samfélags. Mig langar t.d. oft í blátt eða fjólublátt hár. Einhverfar konur eru oft en ekki alltaf, dálitlar strákastelpur. Það hefur verið sagt að einhverfan tengist karlmannlegum heila og ef það er rétt eru konurnar líka dálitlir strákar í sér. Þær vilja gera við bíla og forrita, á meðan mamman var að vona að þær vildu prjóna og sauma í eins og ömmur þeirra gerðu. Svo viljum við læra japönsku, teikna kanji, teikna almennt, lesa, lesa meira, lesa meira en strákarnir o.s.frv.

Móðir mín hefur átt erfitt með að skilja af hverju hún á svona sérstaka dóttur. Það hefur reynst móður minni erfitt. Við erum svo afskaplega ólíkar. Svo vissum við ekkert um einhverfuna fyrr en ég var orðin 44 ára gömul og fékk loksins greiningu. En ég er ekki viss um að fjölskylda mín skilji ennþá almennilega hvað einhverfa er. Ég hef tekið að mér að vera dálítið skrýtin frænka. Dulítið spes. En það er samt mikill kærleikur innan fjölskyldunnar.

Ég vissi alltaf að ég væri öðruvísi. Var farin að fatta það um 10 ára aldurinn. Fyrst hélt ég náttúrulega bara að ég væri svona klár, en sennilega var það misskilningur. Ég er ekki eins klár og margir halda. Ég er bara vinnusöm og ég klára þau verkefni sem ég byrja á.

Þessvegna hef ég lokið 4 háskólagráðum og sú fimmta er á leiðinni. Ekki djók.

Áreksturinn

Það var haust og veðrið ekki upp á sitt besta. Eilífur Ellertsson, forstjóri Landsvirkjunar, starði út í slagveðurssortann. Hönd hans hélt um viskíglas og hann minntist þess að nákvæmlega í dag voru tvö ár frá því að skilnaðurinn gekk í gegn. Friðhildur konan hans hafði fengið sér ungan elskhuga og bjó nú í lúxusvillu í Garðabænum með þremur börnum þeirra og elskhuganum. Eilífur fékk sér annan sopa af Glenfiddich. Hann sem hafði raunverulega elskað hana.

Dags daglega var forstjóri Landsvirkjunar ekkert að ræða einkamál sín. Hann hélt fundi um orkustefnu stjórnvalda, skipulagði vindmyllubúgarða á Suðurlandsundirlendinu, hitti erlenda gesti sem höfðu áhuga á „grænni orku.“ Hann var yfirvegaður, klár, samviskusamur og nákvæmur stjórnandi. Hann var fyrirmynd og einn æðsti embættismaður landsins. Enginn mátti vita að einkamál hans væru í algjöru rugli.

Daginn eftir var hann með hausverk sem hann reyndi að fela með tveimur panódíl. Um kvöldið eftir langan vinnudag var hann orðinn svangur. Hann ók inn á bílastæðið við IKEA. BMWbílnum lagði hann í gott stæði. Hann leit með stolti á bílinn sem var fagurblár og sanseraður. Það voru ekki margir á Íslandi sem áttu þessa tegund af BMW. Eilífur fór inn í matsal IKEA og fékk sér tíu sænskar kjötbollur með brúnni sósu og brómberjasultu. Allt í einu heyrði hann brothljóð og það var greinilega eitthvert vesen úti á bílastæði. Hann gekk að glugganum á matsal IKEA og fékk áfall. Hann sá ekki betur en ljósgrænni nýlegri VWbjöllu hefði verið bakkað beint á bílinn hans.

Hann hljóp út úr IKEA. Við hlið grænu VWbjöllunnar stóð ung kona í grænu pilsi, regnbogalitum sokkabuxum og með Fjällrävenbakpoka og horfði sorgmædd á tjónið. Hún var með ægifagurt, eldrautt, sítt hár og græn tindrandi augu.

Eilífur ætlaði að segja eitthvað en fann að hann átti erfitt með mál. Konan bað hann innilega afsökunar og tók fram tjónaskýrslur handa tryggingarfélögunum sem fylla þurfti út. Hún horfði á hann eitthvað svo furðulega með þessum fallegu tindrandi grænu augum. Hann starði á hana um stund þegjandi og fann hvernig hann byrjaði að roðna í kinnunum. Honum fannst hann sökkva ofan í grænt gufubað og í nokkur sekúndubrot fannst honum sem hún væri búin að dáleiða hann.

Hann rankaði þó fljótt við sér. „Ert þú ekki Eilífur Ellertsson?“ spurði konan feimnislega og brosti. Hún var með hvítar tennur í viðbót við allt annað. Það lá við að hann yrði gramur. Hvernig getur einhver leyft sér að vera svona fullkominn?

„Ég heiti Anna Friðbjarnardóttir og er sjúkraliði.“  Guð minn góður, hugsaði hann. Það er eins gott að hún sé vel tryggð! Viðgerðir á BMW bílum eru dýrar. – „Þú ert forstjóri Landsvirkjunar, er það ekki?“

„Jú,“ sagði hann og var algjörlega óviðbúinn því sem síðan gerðist. Anna hóf mál sitt og hélt yfir honum fimmtán mínútna fyrirlestur um skort Landsvirkjunar á náttúruvernd. Hann reyndi að andæfa, tala um grænu orkuna, vindmyllurnar og framtíðina en hann komst hreinlega ekki að.

Allan tímann horfði hann í þessi tindrandi grænu augu. Eldrautt hárið glampaði í sólinni. Hann tók eftir því að Anna Friðbjarnardóttir varð æ fegurri eftir því sem hún varð reiðari. Hann stóð sjálfan sig að því að horfa á hana með hreinni aðdáun.

Hún þagnaði skyndilega. Hann var snortinn. Hann gat ekki útskýrt af hverju en hann spurði hana hvort hann gæti ekki skutlað henni heim. VWbjallan var illa farin en BMWinn var bara með skrámur. Þá fór Anna allt í einu að gráta. Hún öskraði „Andskotans!“ og áður en Landsvirkjunarforstjórinn hafði náð að átta sig á því almennilega var hann kominn með snöktandi umhverfissinnann í fangið.  Ekki setja hor í jakkafötin mín, hugsaði hann. Þau eru Armani.

Hann ók henni heim. Eftir á mundi hann ekkert hvaða leið þau höfðu farið. En hann mundi heimilisfangið: Séstvarlagata 54. Hún var einhvers staðar í Vesturbænum. Símanúmerið hennar var skráð á já.is.

Daginn eftir var hann utan við sig í vinnunni. Myndin af Önnu var alltaf að koma upp í huga hans og hann fann fyrir líkama hennar, stinnum og nettum eins og hann var þegar hún kastaði sér í fang hans.

Fundur um vindmyllubúgarða var á dagskrá klukkan 16:00 en sem betur fer átti hann ekki að halda fyrirlestur. Þegar hann ók heim eftir vinnu ók hann eins og í leiðslu að Séstvarlagötunni í Vesturbænum. Hann slökkti á bílnum og starði á gluggana í húsinu. Hún bjó á fyrstu hæð til hægri. Þar var ljós. Hjarta hans sló örar og hann svitnaði í lófunum. Að lokum herti hann sig upp og gekk upp að dyrunum og hringdi bjöllunni. Hann var þurr í hálsinum.

Anna kom niður og opnaði útidyrnar. Hann gleymdi algjörlega því sem hann vildi segja og mændi aðeins á hana eins og hundur. Anna sagði ekkert, heldur togaði hann inn yfir þröskuldinn og þefaði af hálsinum á honum. Hann fann andardrátt hennar á andliti sínu. – „Ég þarf að tala við þig,“ sagði Anna loks og dró hann inn í íbúðina sína uns hann lenti í mjúkum regnbogalituðum sófanum í stofunni.

„Um hvað eigum við að tala?“ spurði hann hálfmáttlaus og hás.

„Um virkjun Aldeyjarfoss,“ sagði hún og settist alvarleg niður við hlið hans.

„Já, en ég ræð engu um það,“ sagði hann hálf afsakandi.

„Ræður engu? Þú sem ert forstjóri Landsvirkjunar. Þú ræður öllu.“

„Nei, þú misskilur,“ sagði hann, „það eru stjórnmálamennirnir sem taka ákvarðanirnar, Alþingi og Rammaáætlunarnefndirnar. Ég …“ Hann ætlaði að fara að segja eitthvað meira en hún hreinlega dró hann til sín og næsta morgun mundi hann ómögulega hvað hafði gerst nema það að hann hafði sofið hjá umhverfissinnaðri konu og var orðinn ástfanginn upp fyrir haus.

Hann lá í rúminu við hlið hennar og starði upp í loftið. Blátt teppi með stjörnum var fest við loftið. Svartur köttur með skærgræn augu mjálmaði og hoppaði upp á brjóstkassa hans. Anna sneri sér við og sagði: „Farðu út SvartiPétur!“ Hún opnaði gluggann og kisi stökk upp í gluggakistuna og síðan út um gluggann.

Anna sneri sér við. Hún er yndislega freknótt, hugsaði Eilífur og dáðist að andlitinu á henni.

„Við verðum að flýta okkur á fætur,“ sagði Anna skyndilega. „Það koma tveir aðgerðasinnar frá Saving Iceland í hádegismat.“ Eilífur þagði. Honum var brugðið en einhver máttur sem var honum æðri virtist segja honum að þegja. „Ég þarf að fara,“ sagði hann loksins, en sá strax eftir því að hafa opnað munninn.

Anna leit á hann og brosti hæðnislega. „Já, þú þorir varla að standa andspænis heiðarlegum aðgerðasinnum, er það nokkuð? Sennilega of flókið fyrir þig.“

Eilífur andvarpaði. Anna var langfallegust þegar hún reiddist. Þá skutu græn augu hennar gneistum. Hann langaði ekki vitundarögn til að fara eitt né neitt. En hann vissi að hann var ekki frjáls að því að haga sér eins og honum sýndist. Að borða hádegisverð með Saving Iceland. Hann hlaut að vera að bilast!

Klukkustundu síðar sat hann með kaffibolla á skrifstofunni á Háaleitisbrautinni. Hann var alveg hættur að geta gert nokkurn skapaðan hlut. Hann starði út um gluggann. Horfði á Bláfjöllin, Keili og Reykjanesið. Hvernig hafði honum dottið í hug að sofa hjá næstum ókunnugum kvenmanni? Var hún norn? Hafði hún kannski dáleitt hann? Hún átti að minnsta kosti svartan kött. Eilífur hristi hausinn. Hann var í raun og veru að klikkast. Þegar hann íhugaði málið sá hann að hann hafði lengi verið mjög óhamingjusamur. Hjónabandið með Friðhildi hafði verið hræðilegt. Hún hafði næstum því beitt hann andlegu ofbeldi. Það var kaldhæðnislegt en hann, þessi mikli forstjóri, var í rauninni mjúkur, tilfinningaríkur maður sem konur áttu til að fara illa með. Þær horfðu of mikið á stöðu hans, peningana og virðinguna. En það góða við Önnu var að hann skynjaði að hún hafði nákvæmlega engan áhuga á peningunum hans. Hún hafði sennilega bara engan áhuga á peningum eða hagfræði yfirleitt.

Það liðu nokkrir ískaldir haustdagar í september. Morgun einn skein sólin fagurlega yfir bleikan sjóndeildarhringinn. Þetta virtist ætla að verða einstaklega fallegur dagur. Eilífur var að lesa yfir nýtt frumvarp til laga sem Landsvirkjun átti að gefa umsögn um þegar Anna hringdi í hann og spurði hvort hann gæti ekki tekið sér frí eftir hádegið og komið með sér í göngutúr í Heiðmörkinni. Eilífur sagði ritaranum í vinnunni að hann væri með mígreni og sagðist þurfa að fara heim í hádeginu. Síðan var hann þotinn.

Um eittleytið stóð BMWbifreið Eilífs við skógarreit Ferðafélags Íslands í Heiðmörkinni. Anna hélt í hönd hans og kisinn SvartiPétur var með í för. Þau gengu eftir skógarstígunum sem voru huldir haustlaufum í gulum, rauðum og brúnum litum. Loftið var ferskt og tært eins og gerist einungis á heiðríkum haustdögum. Eilífur hafði gengið þennan hring nokkrum sinnum en núna vildi Anna endilega beygja inn á skógarstíg sem honum fannst hann ekkert kannast við. Hún hló svo fallega að hann varð bergnuminn, rautt hárið tindraði í sólinni og hann fann hamingjuna innra með sér vaxa eins og fallegt blóm.

Þau gengu inn í skóginn sem var fullur af grenitrjám. Eftir því sem þau gengu lengra varð skógurinn þéttari og dimmari. Að lokum opnaðist fyrir framan þau stórt rjóður með litlum læk. Í rjóðrinu miðju stóð timburkofi. Það logaði á lukt við dyrnar og inni virtist vera notalegt og huggulegt. „Þetta er sumarhúsið mitt,“ sagði Anna brosandi og leiddi Eilíf inn um dyrnar.

Ég minnist þess aldrei að hafa séð þetta hús í Heiðmörkinni, hugsaði Eilífur undrandi. Hann settist í gamlan búrgúndírauðan hægindastól sem stóð á einungis þremur fótum. „Þetta er gamli hægindastóllinn hennar Önnu Akhmatovu,“ sagði Anna. „Hann er frá upphafi 20. aldar. Hún notaði hann mikið á Stalínstímanum þegar hún las forboðnar bókmenntir í litlu blokkaríbúðinni sinni.“

Forboðið? Eilífi fannst eitthvað forboðið við þetta allt saman. Það var skál með eplum á íburðarmiklu mahoganýstofuborðinu. Ævintýrið um Mjallhvíti kom ósjálfrátt upp í hugann. Anna tók fram stóran, svartan pott og spurði Eilíf hvort hann vildi ekki fá gúllas í kvöldmatinn. Eilífur jánkaði því og Anna fór að skera niður gulrætur og lauka til að hafa með gúllasinu. Eilífur gekk að spegli sem hékk á veggnum.

Þegar hann leit í spegilinn brá honum rosalega. Hann sá spegilmynd sína en hún var allt öðruvísi en venjulega. Yfir honum var brúnt ský og eina birtan var fagurgrænt ljós frá brjóstkassanum á honum. –

„Þú ert að horfa á áruna þína,“ sagði Anna. „Þetta er áruspegill. Hann sýnir tilfinningalíkama mannsins. Það þarf að hreinsa áruna þína. Við verðum að vinna í því seinna. Karmað þitt er ekkert sérstaklega vel statt í augnablikinu.“

„Þú ætlar þó ekki að segja mér að þú trúir á árur?“ spurði Eilífur. „Ég hélt þú værir mun veraldlegri týpa.“

„Veraldleg týpa?“ Anna hló. „Ó nei, ég er ekkert mjög veraldleg. Viltu sjá hver ég er í raun og veru?“ Eilífur sneri sér við og tók andköf af skelfingu þegar hann sá Önnu. Skyndilega stóð hún fyrir framan hann í öllu sínu veldi. Hún var með svartan, barðastóran hatt, stórt hálsmen um hálsinn með silfurslegnum malakítgrænum steini og í indígóbláum bol sem lýsti í myrkrinu eins og hann væri sjálflýsandi. Hún virtist að minnsta kosti helmingi stærri en venjulega. Í hendinni hélt hún á mjög fornum staf með bagli á endanum úr því sem virtist vera skíra gulli. Rautt hárið sindraði í flöktandi bjarmanum frá eldstónni.

„Eeeee … ertu raunverulega norn?“ spurði Eilífur og starði fram fyrir sig í mállausri skelfingu.

„Já, ég er norn,“ sagði Anna með rödd sem virtist hafa eflst og styrkst. Það var ekkert eftir af þessari litlu, hræddu Önnu sem grét á bílastæðinu fyrir utan IKEA. „Ég er norn náttúrunnar. Ég stend vörð um lífríki landsins, gróðurinn, plönturnar og dýrin. Ég er yfirnáttúruleg vera skipuð af alheiminum sjálfum til að gæta lífsins á þessari reikistjörnu og mér er stórlega misboðið.“

„Af hverju?“ spurði Eilífur og svitnaði í lófunum. Hann reyndi að klípa í handlegginn á sér. Var þetta kannski bara draumur?

„Mér er misboðið af því að í upphafi var Ísland heilagt land. Það var helgað með eldi af eldguðinum Ignis sem þið Íslendingar kölluðuð Ingólf Arnarson. Hugmyndin var alltaf að þótt önnur lönd eyðilegðust yrði þessi einangraða eldfjallaeyja vernduð af æðri máttarvöldum. Náttúra Íslands átti að vera og var helg frá upphafi.“

Eilífur fann hvernig hann þornaði upp í munninum. Hann var einhvern veginn ekki alveg viss um að þetta ævintýri myndi enda vel. Og það versta var að hann var ennþá hrifinn af Önnu þótt hún væri norn. Hún var beinlínis sexí og æðisleg í þessum fötum og hatturinn fór henni svakalega vel. Þetta malakít sem hún var með um hálsinn var örugglega margra milljóna króna virði.

„Ég gerði mér ekki grein fyrir þessu,“ sagði Eilífur um leið og honum tókst að ná nokkurn veginn stjórn á sjálfum sér.

„Nei, þú skildir ekki neitt,“ stundi nornin, „og núna ertu búinn að eyðileggja karmað þitt. Það verður meiriháttar vesen að laga það aftur. Alheimurinn er verulega fúll út í þig.“

Græn augun í Önnu skutu gneistum. Eilífur sá allt í einu sér til undrunar að dyrnar á kofanum opnuðust og það var engu líkara en verið væri að bjóða honum að hlaupa út. Hann elskaði Önnu en hann varð að viðurkenna að hún væri dálítið stór pakki, jafnvel fyrir mann eins og hann. Hann ákvað því að bjarga lífi sínu og forða sér út um dyrnar.

Um leið og hann stökk út um dyrnar hvarf greniskógurinn. Eilífur lá allur í mold og laufum á stígnum við reit Ferðafélagsins og núna var enginn skrýtinn skógarstígur til lengur. Eilífur stóð á fætur. Hann kannaði hvort hann væri einhvers staðar sár eða brotinn en svo var ekki. Síðan gekk hann rólega að BMWinum sem beið hans á bílastæðinu.

Næstu fjórar vikurnar var Eilífur veikur. Hann sagðist vera með flensu en í raun var hann þjáður af nístandi hjartasorg. Hann hafði orðið raunverulega hrifinn af Önnu og núna var hjarta hans allt í molum. Að lokum barst uppsagnarbréf til Iðnaðarráðuneytisins og stjórnar Landsvirkjunar. Forstjóri Landsvirkjunar sagði upp starfi sínu af persónulegum ástæðum. Eilífur vissi að hann yrði nokkur ár að jafna sig eftir þessa reynslu. Honum fannst hann þurfa tíma til að syrgja og sleikja sárin. Hann ákvað að gerast kennari í Finnbogastaðaskóla á Ströndum. Þannig hvarf hann af spjöldum sögunnar.

IEB (2017)